Dagana 11.-13. október nk. mun Stockholms Manskör halda þrenna tónleika hér á landi í samstarfi við Karlakórinn Fóstbræður, Karlakór Keflavíkur og Karlakór Selfoss.
Á efnisskrá tónleika Stockholms Manskör kennir ýmissa grasa þar sem skandinavísk kórtónlist skipar stóran sess með verkum eftir m.a. Edvard Grieg, Hugo Alfven og Jean Sibelius svo dæmi séu tekin. Auk þess eru á efnisskránni verk eftir franska höfunda eins og Camille Saint-Saëns, Darius Milhaud og Francis Poulenc. Eins má geta einstakra laga eins og „Bridge over troubled water“ eftir þá félaga Simon og Garfunkel auk ABBA lagsins „Mamma Mia“ og fleiri laga.