Norræn bókmenntavika er verkefni á vegum Sambands norrænu félaganna þar sem norræn frásagnarlist og sagnaauður er í öndvegi. Leitast er við að efla lestrargleði og breiða út norrænar bókmenntir á Norðurlöndunum og nágrannalöndum.
Meginmarkmið Norrænu bókmenntavikunnar er að lýsa upp svartasta skammdegið með því að tendra ljós og lesa bók. Vikan er sneisafull af alls kyns viðburðum - svo sem upplestrum, umræðum, sýningum og öðrum menningarviðburðum - sem eiga sér stað samtímis á þúsundum bókasafna, skólum og öðrum samkomustöðum víðsvegar á Norðurlöndum og nærliggjandi löndum.
Norræna bókmenntavikan skiptist í tvo þætti: annars vegar Morgunstund - upplestur fyrir börn og hins vegar Rökkurstund - upplestur fyrir fullorðna.
Þátttaka í Norrænu bókmenntavikunni er öllum að kostnaðarlausu og krefst eingöngu skráningar og áhuga þátttakenda. Hægt er að skrá sig á heimasíðunni endurgjaldslaust.
Skráðu skólann þinn, bókasafnið eða stofnunina og taktu þátt einum stærsta upplestrarviðburði Norðurlandanna! Þannig getum við í sameiningu skapað einstakan viðburð - þar sem norrænar bókmenntir lifna við og öðlast líf í skammdegisrökkrinu.