Lög Norræna félagsins

 

Nafn, hlutverk og markmið

  • Félagið heitir Norræna félagið á Íslandi og er samband félagsdeilda, einstaklinga og stofnana er starfa samkvæmt lögum þess. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

  • Markmið Norræna félagsins er að efla norrænt samstarf á öllum sviðum samfélagsins, efla frið Norðurlandaþjóðanna sín á milli og þeirra og annarra þjóða út á við.


    Norræna félagið vinnur að markmiðum sínum með því að stuðla að samskiptum milli einstaklinga, félagsdeilda og byggðarlaga og við systurfélög sín á Norðurlöndum innan vébanda Sambands Norrænu félaganna (Foreningerne Nordens Forbund, FNF).


    Norræna félagið er óhagnaðardrifið félag, rekið í þágu almannaheilla og starfar í samræmi við lög nr. 110/2021 um félög til almannaheilla. Fjármagni sem samtökunum áskotnast skal að öllu leyti varið til reksturs og hlutverks samtakanna.

  • Sambandsþing fer með æðstu stjórn Norræna félagsins. Sambandsstjórn fer með stjórn félagsins milli sambandsþinga.

Aðild og réttur

  • Eftirtaldir aðilar geta verið félagar í Norræna félaginu:
    1. Einstaklingar
    2. Skólar, bókasöfn og aðrar stofnanir
    3. Félög eða félagasamtök
    4. Fyrirtæki

  • Aðild að Norræna félaginu öðlast þeir sem ganga í einhverja deild þess. Félagi starfar í deild í sinni heimabyggð nema hann óski annars.


    Félagsgjöld og skipting þeirra milli félagsdeilda og sambandsins skulu ákvörðuð á sambandsþingi.


    Félagsmönnum er skylt að greiða það félagsgjald sem sambandsþing ákveður. Ef félagsmaður er með ógreidd félagsgjöld samtals í 3 ár er heimilt að fella félagsmann út af félagaskrá án viðvörunar.


    Félagið fjármagna sig einnig með styrkjum frá opinberum aðilum og öðrum, sölu á vörum og þjónustu, og öðrum tilfallandi fjáröflunum.


    Skilyrði til að njóta fyrirgreiðslu og þjónustu sem félagið veitir er að viðkomandi sé skuldlaus við það.

Félagsdeildir

  • Norræna félagið starfar í félagsdeildum sem eru sjálfstæð félög með eigin stjórn, sjálfstæðan fjárhag og lög sem þó mega ekki brjóta í bága við lög félagsins. Félagsdeildum ber einnig að starfa í samræmi við lög nr. 110/2021 um félög til almannaheilla.

  • Ungmennadeild Norræna félagsins, Ung norræn er samstarfsvettvangur allra skráðra félagsmanna Norræna félagsins, 30 ára og yngri. Deildin starfar eftir sömu reglum og aðrar deildir, að öðru leyti en því að hún kýs ekki fulltrúa á sambandsþing og innheimtir ekki félagsgjöld. Formaður Ungmennadeildarinnar situr í sambandsstjórn Norræna félagsins. Ung norræn ber að senda sambandstjórn skýrslu um störf sín þegar að loknum aðalfundi, eða í síðasta lagi fyrir lok mars ár hvert.

  • Deildum ber að senda sambandsstjórn skýrslu um stjórnarkjör, störf sín og ársreikninga þegar að loknum aðalfundi, eða í síðasta lagi fyrir lok mars ár hvert. Skrifstofa Norræna félagsins annast innheimtu félagsgjalda fyrir deildir nema þær vilji hafa annan hátt á. Reikningsár félagsdeilda er almanaksárið.

  • Aðalfundur félagsdeilda skal haldinn fyrir lok mars ár hvert og boðaður með minnst sjö daga fyrirvara. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.

    Aðalfundur starfar samkvæmt eftirfarandi dagskrá:
    1. Kosning fundarstjóra og ritara.
    2. Skýrsla stjórnar um störf og fjárhag félagsdeildarinnar.
    3. Kosning formanns.
    4. Kosning stjórnar, varastjórnar og endurskoðenda fyrir næsta starfsár, sbr. 10. gr.
    5. Kosning fulltrúa og varamanna á sambandsþing samkvæmt 14.gr.
    6. Önnur mál.
    7. Þingslit.

  • Stjórn félagsdeildar skipa a.m.k. 3 aðalmenn og 1 varamaður.


    Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum.

  • Formaður boðar til stjórnarfunda svo oft sem þurfa þykir.


    Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar er mættur.


    Heimilt er að boða varamenn á stjórnarfundi, þar sem þeir hafa málfrelsi og tillögurétt.


    Meirihluti stjórnar ritar firma félagsdeildar.

  • Stjórnin boðar til félagsfunda svo oft sem þörf gerist. Félagsfundi skal boða með sama hætti og aðalfundi.


    Einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála á fundum félagsins nema um sé að ræða lagabreytingar á aðalfundi, en til þeirra þarf samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða.


    Hafi lögbundinn aðalfundur ekki verið haldinn, á sambandsstjórn Norræna félagsins að hlutast til um að hann verði boðaður með lögmætum hætti.

  • Tillögu um að leggja niður deild skal leggja fyrir sambandsstjórn Norræna félagsins til umfjöllunar.


    Tillöguna ber síðan að leggja fyrir löglega boðaðan aðalfund deildarinnar til afgreiðslu og þarf samþykki minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða. Verði hún samþykkt á þeim fundi skal boða til aukaaðalfundar að 14 dögum liðnum og þarf tillagan 2/3 hluta greiddra atkvæða til að öðlast gildi. Tillögu skal kynna í aðalfundarboði með löglegum fyrirvara.


    Tillögum um að sameina félagsdeildir á sama landsvæði þarf að afgreiða á sama hátt í öllum viðkomandi deildum.


    Félagsmönnum skal gefinn kostur á að gerast félagar í þeirri deild sem þeir óska, sbr. 5. gr.


    Við sameiningu deilda skulu eignir þeirra renna til hinnar nýju deildar. Verði deild lögð niður skulu eignir hennar renna til Norræna félagsins.

Sambandsþing

  • Sambandsþing skal haldið á tímabilinu frá apríl byrjun og í síðasta lagi í lok maí annað hvert ár.


    Sambandsstjórn boðar til sambandsþings með a.m.k. fjögurra vikna fyrirvara. Minnst viku fyrir sambandsþing skal skráðum þingfulltrúum sendur útdráttur úr skýrslu stjórnar, skoðaðir og áritaðir reikningar Norræna félagsins og tillögur að lagabreytingum. Skulu þessi gögn jafnframt liggja frammi á þinginu.

  • Fulltrúar félagsdeilda á sambandsþing skulu kosnir á síðasta aðalfundi félagsdeilda fyrir þingið. Tilkynning um kjör fulltrúa skal send sambandsstjórn eigi síðar en í lok mars á því ári sem sambandsþing skal haldið.


    Kjósa skal einn fulltrúa og einn varafulltrúa fyrir hverja 100 félaga í félagsdeild eða byrjað 100 allt að 500 félögum og eftir það einn fulltrúa og einn varafulltrúa fyrir hver byrjuð 400. Miða skal við félagaskrá Norræna félagsins þann 31. desember á árinu fyrir fyrirhugað Sambandsþing. Aðeins skuldlausir félagsmenn geta haft atkvæðisrétt á Sambandsþingi Norræna félagsins.


    Einungis aðalfulltrúi hefur atkvæðisrétt á sambandsþingi eða varamaður í forföllum hans að því tilskyldu að stjórn viðkomandi félagsdeildar hafi tilkynnt skrifstofu félagsins nöfn aðal- og varafulltrúa minnst viku fyrir þing. Hver fulltrúi fer með eitt atkvæði.


    Formaður ásamt aðal- og varafulltrúum í sambandsstjórn hafa atkvæðisrétt á sambandsþingi.


    Starfsmenn félagsins og félagsmenn sem ekki eru kjörnir fulltrúar hafa rétt til setu á sambandsþingi með málfrelsi og tillögurétt.


    Framboð til formanns skal tilkynna uppstillingarnefnd með sannanlegum hætti a.m.k. 7 dögum fyrir sambandsþing.


    Sambandsþing getur kjörið heiðursfélaga Norræna félagsins að fengnum tillögum sambandsstjórnar.

  • Sambandsþing starfar samkvæmt þingsköpum Norræna félagsins og skal í meginatriðum fylgja eftirfarandi dagskrá:
    1. Þingsetning og kosningar forseta, varaforseta og ritara þingsins.
    2. Skýrsla sambandsstjórnar fyrir liðin starfsár lögð fram.
    3. Ársreikningar Norræna félagsins á Íslandi fyrir síðustu tvö ár lagðir fram.
    4. Tillaga sambandsstjórnar um félagsgjöld næstu tveggja ára lögð fram.
    5. Tillögur um lagabreytingar lagðar fram
    6. Tillögur þingfulltrúa lagðar fram.
    7. Umræður og atkvæðagreiðsla um skýrslu stjórnar, reikninga félagsins, félagsgjöld, lagabreytingar og tillögur þingfulltrúa.
    8. Kosningar:
    a) Kosning formanns.
    b) Kosning 5 aðalmanna og 4 til vara í sambandsstjórn.
    c) Kosning skoðunarmanna reikninga og varamanna þeirra.
    9. Tillaga um næsta þingstað og annan til vara.
    10. Önnur mál.
    11. Þingslit

Formannafundur

  • Formannafundur er haldinn annað hvert ár. Á þá fundi eru boðaðir formenn deilda, sambandsstjórn, starfandi nefndaformenn og starfsmenn skrifstofu. Markmið formannafundar er:

    Að fá yfirlit yfir starfsemi Norræna félagsins, félagsdeilda og nefnda.

    Að móta tillögur til eflingar félagsstarfinu sem einnig verði umræðugrundvöllur til ákvarðanatöku á næsta sambandsþingi á eftir.


    Sambandsstjórn tekur ákvörðun um fundarstað og boðar til fundarins með að minnsta kosti fjögurra vikna fyrirvara. Fyrir fundinn skulu skrifstofu hafa borist skýrslur um stjórnarkjör, störf deilda og ársreikninga þeirra.

Sambandsstjórn

  • Sambandsstjórn er kosin á sambandsþingi til tveggja ára í senn. Hún er skipuð sjö félögum, formanni, 5 aðalmönnum auk formanns ungmennadeildar og 4 varamönnum. Kappkostað skal hverju sinni að eðlileg landfræðileg dreifing náist meðal kjörinna fulltrúa og varafulltrúa í stjórninni. Stjórnin skiptir með sér verkum á fyrsta fundi og velur sér varaformann, ritara og gjaldkera.

  • Sambandsstjórn er heimilt að skipa nefndir um einstök verkefni.


    Sambandsstjórn setur nefndum erindisbréf.


    Nefndir skulu halda fundargerðir yfir fundi sína og skila skýrslu um störf sín til sambandsstjórnar.

  • Formaður boðar sambandsstjórn til fundar með dagskrá með minnst viku fyrirvara. Fundur í sambandsstjórn er löglegur ef formaður og meirihluti stjórnarmanna sitja fundinn.


    Atkvæði formanns ræður úrslitum falli atkvæði jafnt. Á öllum fundum sambandsstjórnar skal skrá fundargerðir og senda þær formönnum félagsdeilda.


    Formaður getur boðað aðra en þá sem að ofan greinir á fund sambandsstjórnar telji hann þörf á því.


    Meirihluti stjórnar ritar firma félagsins.

Starfsmannahald

  • Sambandsstjórn ræður framkvæmdastjóra til að annast daglegan rekstur Norræna félagsins og skrifstofu þess. Framkvæmdastjóri ræður aðra starfsmenn.


    Framkvæmdastjóri situr alla fundi sambandsstjórnar með málfrelsi og tillögurétt.

Lagabreytingar

  • Breytingar á lögum þessum má aðeins gera á sambandsþingi Norræna félagsins, enda hafi tillögur borist sambandsstjórn með minnst tveggja vikna fyrirvara áður en sambandsþing er haldið.


    Lagabreytingar öðlast gildir hljóti þær samþykki amk 2/3 hluta greiddra atkvæða.

  • Tillaga um að leggja niður Norræna félagið getur einungis komið fram frá fulltrúa í sambandsstjórn eða formanni félagsdeildar. Tillagan skal þá borin upp á sambandsþingi sem boðað er með löggiltum fyrirvara og tillagan kynnt í fundarboði. Tillagan þarf samþykki 4/5 hluta greiddra atkvæða. Verði hún samþykkt skal boðað til aukasambandsþings að 14 dögum liðnum til að afgreiða hana. Koma skal fram í fundarboði að slík tillaga verði tekin til umfjöllunar.


    Til þess að hún verði samþykkt þarf 4/5 hluta greiddra atkvæða á aukasambandsþinginu.


    Verði félagið lagt niður skulu eignir þess falla til annarra félaga er vinna í þágu norrænnar samvinnu í samræmi við ákvörðun sambandsþinganna.

  • Lög þessi öðlast þegar gildi og falla jafnframt úr gildi eldri lög félagsins.


    Samþykkt á sambandsþingi Norræna félagsins 2. apríl 2022.