100 ára afmæli Norræna félagsins
Þann 29. september 2022 voru liðin 100 ár frá stofnun Norræna félagsins á Íslandi og í tilefni aldarafmælisins var allt árið 2022 helgað norrænu samstarfi, norrænni vitund, menningu og samkennd.
Afmælishátíðin hófst með vígslu norræns vinalundar í Fossvogsdalnum, þar sem búið er að gróðursetja um 100 plöntur, þar af átta mismunandi trjáplöntur og runna sem tákna hvert sitt land á Norðurlöndum. Við dæmigerðan trjágróður fyrir hvert land hefur verið komið fyrir skilti með fána og QR-kóða þar sem kalla má fram fróðleik um viðkomandi land. Við hvetjum félagsmenn og aðra áhugasama að heimsækja lundinn (sjá kort).
Hátíðarkvöldverður var haldinn á Hótel Borg 29. september þar sem forseti Íslands ávarpaði gesti og boðið var upp á skemmtidagskrá.
Föstudaginn 30. september var efnt til norrænnar ráðstefnu í Þjóðminjasafni Íslands. Yfirskrift ráðstefnunnar var Ný tækifæri í norrænu samstarfi - Friður, traust og lýðræði. Ráðstefnustjóri var Bogi Ágústsson, fyrrum formaður Norræna félagsins.
→ Nánar má lesa um 100 ára afmælið á afmælissíðu Norræna félagsins - www.norden100.is