Opinn fundur Norræna félagsins
Norræna húsið, 29. maí kl. 16:30-18:00
Grænlendingar hafa sagt sig frá samstarfi norrænu forsætisráðherrana í mótmælaskyni við það sem forsætisráðherra þeirra kallar mismunun. Ástæðan: Grænlendingar voru ekki boðnir til að sitja við borðið á árlegum sumarfundi forsætisráðherra Norðurlandanna í Stokkhólmi þar sem utanríkis- og varnarmál voru í brennidepli. Á fundinn voru af Svíum, sem eru í forsæti Norrænu ráðherranefndarinnar 2024, boðnir leiðtogar Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar, auk Þýskalands. Mörg undanfarin ár hafa forsætisráðherrar Álands, Færeyja og Grænlands iðulega tekið þátt í fundum forsætisráðherrana, en þó ekki alltaf og þá með takmörkunum.
Helsinki-samningurinn frá 1962 er „undirstaða“ norræns samstarfs. Samningurinn hefu r ekki tekið breytingum í um 30 ár. Heimsmyndin er breytt. Samningurinn gerir ekki ráð fyrir því að ríkin eigi samstarf um utanríkis- og varnarmál, sem þó eru orðin þungamiðja samstarfsins. Þá er staða Álandseyja, Færeyja og Grænlands óljós og umdeild. Norðurlandaráð hefur beitt sér fyrir breytingum á sáttmálanum, m.a. til að gera umfjöllun um framangreind málefni formfastari. Ríkisstjórnir Norðurlanda eru hikandi.
Á sama tíma og forsætisráðherrar Norðurlanda tala um vaxandi mikilvægi norræns samstarfs fer sífellt minna fyrir því fjármagni sem veitt er til samstarfsins. Eru stóru orðin bara innantómt hjal eða er mögulegt að láta samstarfið blómstra án þess að leggja því til meira fjármagn?
Á fundinum verður leitast við að varpa ljósi á eftirfarandi spurningar
Hvað liggur að baki ákvörðun Grænlendinga.
Er samstarfið við Grænland, Færeyjar og Álandseyjar í uppnámi er eða er þetta stormur í vatnsglasi.
Hvaða breytingar vill Norðurlandaráð gera á Helsinki-samningnum.
Hverjar eru áherslur Íslands í forsæti Norðurlandaráðs 2024
Er Norðurlandssamstarfið meira í orði en á borði.
Ef stóru orðin um að efla samstarfið eiga að rætast, hvað þarf að gera.
Fundarstjóri og spyrjandi: Bogi Ágústsson
Eru Grænlendingar að stimpla sig út úr Norrænu samstarfi? (talar á dönsku)
Tove Søvndahl Gant, yfirmaður sendiskrifstofu Grænlendinga á Íslandi
Pallborðsumræður fara fram á íslensku. Þátttakendur verða kynntir síðar.