Norðmenn gegna formennsku í Norðurlandaráði 2023. Af því tilefni efna Norræna félagið í Noregi og landsdeild Stórþingsins í Norðurlandaráði til samkeppni fyrir framhaldsskólanema á Norðurlöndum. Þema keppninnar er „Stafrænt ofbeldi, tjáningarfrelsi og lýðræðisleg þátttaka á Norðurlöndum“.
Hægt er að fjalla um efnið í rituðu máli eða myndrænt í formi klippimyndar (collage). Hver bekkur getur sent inn tvær tillögur. Átta tillögur fá viðurkenningu og verða sýndar í anddyri Stórþingsins, Eidsvolls plass, og notaðar í annað efni í tengslum við árlegt þing Norðurlandaráðs, sem verður haldið í Ósló 2023. Vinningstillögurnar fá peningaverðlaun sem verja skal til upplifunar fyrir bekkinn*.
BAKGRUNNUR VERKEFNISINS
Einn þáttur í sameiginlegri framtíðarsýn Norðurlanda fyrir 2030 (Vision 2030) er að löndin verði samþættasta svæði heims, sem sagt það svæði heimsins þar sem löndin tengjast sterkustu böndunum. Til þess að það geti orðið að veruleika verður ungt fólk einnig að taka þátt í samræðum um þróun mála á Norðurlöndum. Það skiptir sköpum fyrir lýðræðið í löndum okkar að ungt fólk fái tækifæri til að taka þátt – og þori að tjá sig.
Tjáningarfrelsi er eitt af grunngildum norræns lýðræðis og er þess getið í stjórnarskrám og mannréttindum landanna. En um leið og við fáum fleiri leiðir til að tjá okkur, ekki síst gegnum samfélagsmiðla, sjáum við engu að síður tilhneigingu til að þrengt sé að tjáningarfrelsi. Stafrænt ofbeldi leiðir til þess að margt fólk, einkum ungmenni og konur, veigrar sér við að tjá sig. Hvaða afleiðingar hefur það fyrir lýðræði á Norðurlöndum ef aðeins fáar raddir heyrast?
Norðurlöndin verða að standa vörð um langa hefð fyrir samfélagsþátttöku barna og ungmenna til að efla norræna samkennd meðal allra íbúa landanna. Norðurlandaráð hyggst leggja aukna áherslu á börn og ungt fólk og samfélagsþátttöku þeirra á árinu 2023. Miklu máli skiptir fyrir Norðurlönd í dag og til framtíðar að börn og ungmenni fái tækifæri til að hafa áhrif á líf sitt, nærumhverfi og samfélagið almennt. Nauðsynlegt er að raddir ungs fólks verði efldar og fái að heyrast. Þess vegna viljum við heyra þína rödd og skoðun þína á tjáningarrými á Norðurlöndum.
TILLÖGUR AÐ VIÐFANGSEFNI
Hver á að ábyrgjast tjáningarrými á Norðurlöndum?
Bergmálshellar eru helsta ógnin við norræna samfélagslíkanið
Á Norðurlöndum ríkir jafnrétti og þar er jafn auðvelt fyrir konur og karla að tjá sig
Góðan vettvang skortir fyrir börn og ungt fólk á Norðurlöndum til að tjá sig
Stafrænt ofbeldi er lýðræðisleg áskorun á Norðurlöndum
Hvernig getur skortur á tjáningarrými ógnað norrænu lýðræði?
SKRIFLEGAR TILLÖGUR
Skráarsnið: PDF
Tungumál: Danska, finnska, íslenska, norska eða sænska
Tegund: Almennur texti (skoðanagrein, grein, pistill, ritgerð, opið bréf o.s.frv.)
Lengd: 400-800 orð
Eftirfarandi upplýsingar skulu fylgja: Nafn, skóli, aldur, heimilisfang, netfang og símanúmer.
Skilafrestur: 4. maí 2023
Sendist til: utdanning@norden.no
GRAFÍSKAR TILLÖGUR
Skráarsnið: PDF, PSD, JPEG eða PNG í hárri upplausn
Stærð skjals: Að minnsta kosti 300dpi í upphaflegri stærð.
Eftirfarandi upplýsingar skulu fylgja: Nafn, skóli, aldur, heimilisfang, netfang og símanúmer.
Skilafrestur: 4. maí 2023
Sendist til: utdanning@norden.no
TILLÖGURNAR ERU METNAR ÚT FRÁ:
Sköpunarkrafti og sjálfstæði
Skilningi á norrænu samfélagi
Miðlun skilaboða
Vandaðri og hlutlausri framsetningu
*Að höfðu nánara samráði við kennara. Upplifunin skal samræmast reglum skólans og skal kennari eða annað starfsfólk skólans sjá um að panta hana. Leggja þarf fram kvittanir. Hámarksupphæðin er 5000 norskar krónur.
Sjá nánar á https://nordeniskolen.org/is/frettir/ungar-raddir-a-nordurloendum-samkeppni-ungs-folks/