Meiri metnað í tungumálasamstarf!

Norrænu félögin sammála um að auka þurfi metnað landanna í kennslu skandinavísku tungumálanna.

Formenn Norrænu félaganna funduðu í Ósló þann 20. janúar s.l. Á fundinum var m.a. samþykkt ályktun sem hefur verið send til meðlima Norðurlandaráðs hvers lands.

Ályktunin er tilkomin vegna fyrirhugaðrar endurskoðunar á Helsingforssamningnum sem er samstarfssamningur milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar og á að efla samstarf norrænu ríkjanna og tryggja að ríkisborgarar annarra norrænna landa njóti sama réttar og ríkisborgarar viðkomandi lands.

Í drögum að endurskoðun Helsingforssamningsins kemur fram ákveðið metnaðarleysi þegar kemur að tungumálaskilningi milli norðurlandabúa og því vilja Norrænu félögin mótmæla.

Ályktunina í heild sinni má lesa hér.

Norðurlöndin hafa sameiginlega sýn um að vera sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030.

Norrænu félögin vilja leggja sitt af mörkunum til að þessi sýn verði að veruleika en telja að leiðin þangað sé greiðfærari ef við hlúum að tungumálakunnáttu íbúanna og gerum þeim kleift að læra skandinavískt tungumál. Tungumálið gerir Norðurlönd að stóru heimasvæði þar sem yfir 27 milljónir manna geta búið, stundað nám og starfað þvert á landamæri.