Helgi Þorsteinsson, nefndarritari Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, hefur skrifað afar skemmtilega samantekt um sögu dags Norðurlanda sem áhugasamir geta lesið hér að neðan.
Dagur Norðurlanda á sér alllanga sögu en hefur færst til og tekið miklum breytingum í áranna rás. Árið 1936 var „Norræni dagurinn” haldinn hátíðlegur 27. október í öllum norrænu ríkjunum að frumkvæði Norrænu félaganna. Í skólum á Íslandi hófst dagurinn á því að börnin voru látin hlusta á klukknahringingar frá dómkirkjunum í Niðarósi, Uppsölum og Helsinki. Berggrav biskup í Noregi flutti síðan ræðu í útvarpið. Þetta hefur eflaust verið skólabörnunum til mikillar gleði og þroskaauka. Síðar um daginn voru fluttar í útvarpi ræður konunga Norðurlanda og forseta Finnlands. Norðurlandafánar voru dregnir á stöng um allan bæinn og ýmislegt fleira var gert til hátíðarbrigða og skemmtunar. Einna markverðast var það að svo að segja öll blöð sem þá voru gefin út – og þau voru mörg – fjölluðu ítarlega um norræna daginn og norræna samvinnu.
Ráðgert var að halda Norræna daginn á fimm ára fresti eftir þetta. Vegna heimsstyrjaldarinnar tókst ekki að standa við þá áætlun og næst var haldið upp á daginn árið 1951. Þá var hann að vísu færður til og ákveðið að hafa hann framvegis alltaf síðasta laugardag í september. Megináherslan var á
útvarpsdagskrá í öllum löndunum. Kóngarnir fengu nú ekki að halda ræðu heldur forsætisráðherrarnir og flutt var norræn tónlist og fleira skemmtilegt barst landsmönnum á öldum ljósvakans. Biskupar og kirkjuklukkur komust þó ekki að í þetta sinn. Einnig var norræn dagskrá í skólum. Háðstímaritið Spegillinn birti ræðu sem það sagði að fulltrúi tímaritsins hefði flutt í tilefni dagsins. Ræðumaður hóf mál sitt með ávarpinu “Góðir Norræningjar” og sagði síðan meðal annars:
Sumir eru að halda því fram, að norræn samvinna sé mest átveizlur með tilheyrandi ræðum, meira og minna fölskum og fláráðum. Þetta má ef til vill til sanns vegar færa, en geta menn kannske hugsað sér samvinnu með tveim eða fleirum svöngum aðilum. Nei, og aftur nei! Forráðamenn þessarar ágætu hreyfingar hafa verið svo glúrnir að hafa jafnan nógan mat og nóg brennivín á samkomum sínum, og árangurinn hefur heldur ekki látið á sér standa. Hversu margir forgöngumenn norrænnar samvinnu ætli væru orðnir krossaðir riddarar, ef hennar hefði ekki notið við ? Og hver vill svo lá mönnum það, þó að þeir gerist dálítið „hástemmdir“, þegar líða tekur á veizlurnar og búið að samþykkja, hvar halda skuli næstu veizlu? Ef slíkt getur ekki komið manni í lyftingu, hvað getur það þá?
Norræni dagurinn var haldinn í þriðja sinn árið 1956 og var hann þá af einhverjum ástæðum fluttur til 30. október. Í fjórða skiptið árið 1961 var hann haldinn 13. apríl og í fimmta skiptið 6. október 1966.
Í öll skiptin voru það norrænu félögin sem höfðu veg og vanda af hátíðarhöldunum í góðu samstarfi við ríkisútvarpsstöðvarnar og skólakerfið. Árið 1956 og hugsanlega oftar voru jafnframt gefin út sérstök frímerki í öllum norrænu löndunum við þetta tækifæri.
Lítið fór fyrir Norræna deginum árið 1971, að minnsta kosti var umfjöllun um hann í íslenskum dagblöðum ekki fyrirferðarmikil.
Þessi hátíð norrænnar samvinnu var lengst af nefnd “Norrænu dagurinn” er stundum var einnig talað um “Dag Norðurlanda”. Síðarnefnda heitið varð ofan á þegar viðburðurinn var endurskoðaður og settur í nýtt samhengi árið 1977. Það ár átti Norðurlandaráð 25 ára afmæli og ákveðið var að framvegis yrði haldið upp á það árlega 23. mars, en þann dag árið 1962 var Helsinki-sáttmáli Norðurlandanna undirritaður við hátíðlega athöfn í finnska þinginu.
Þetta sögulega yfirlit byggir fyrst og fremst á leit í dagblöðum. Frá 1977 er lítið sagt frá Degi Norðurlanda í íslenskum fjölmiðlum. Umfjöllunin verður svolítið meiri eftir því sem nær dregur nútímanum en er þó sáralítil í samanburði við það sem gerðist á fyrstu áratugunum meðan dagurinn
var haldinn hátíðlegur á fimm ára fresti.