Norð­ur­lönd­in hafa allt­af ver­ið heim­a

Í viðtali við Fréttablaðið segir for­maður Nor­ræna fé­lagsins það mikil­vægara en nokkurn tíma að efla sam­starf og vin­áttu á milli Norður­landa. Fólk taki nor­rænu sam­starfi sem gefnum hlut og hafi það leitt til hnignunar.

Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Nor­ræna fé­lagið á Ís­landi fagnar hund­rað ára starfs­af­mæli sínu í ár. Hrannar Björn Arnars­son, sem tók við sem for­maður fé­lagsins 2019, segist lengi hafa haft brennandi á­huga á nor­rænu sam­starfi.

„Ég hef alltaf litið á Norður­löndin sem minn heima­völl, auð­vitað Ís­land fyrst og fremst. For­eldrar mínir voru í Dan­mörku og Norður­löndin hafa alltaf verið heima, ekkert síður heldur en Ís­land.“

Í gegnum ferilinn hefur Hrannar kynnst fjöl­mörgum hliðum nor­ræns sam­starf. Hann hefur verið virkur með­limur í Nor­ræna fé­laginu frá unga aldri og kynntist nor­rænu sam­starfi vel í gegnum starf sitt fyrir Norður­landa­ráð og sem að­stoðar­maður Jóhönnu Sigurðar­dóttur, fé­lags­mála­ráð­herra og síðar for­sætis­ráð­herra.

„Við mörg hver tökum þessu eins og sjálf­gefnum hlut. Við vitum að þetta er gott en vitum kannski ekki af hverju þetta er gott og af hverju þetta er mikil­vægt. Eftir að hafa starfað í þessum bransa og séð hann frá svo mörgum vinklum þá er ég sann­færður um að þetta er það sem hefur fleytt okkur þangað sem við erum, í hópi bestu sam­fé­laga heims,“ segir Hrannar.

Hnignað á síðustu ára­tugum

Þótt margt hafi á­unnist í gegnum nor­rænt sam­starf segir Hrannar enn mikla þörf á að minna á mikil­vægi þess.

„Vegna þess hversu sjálf­gefið og ó­um­deilt þetta er þá hefur þessu bein­línis hnignað. Það eru fáir að berjast fyrir þessu og fylgjast með því hvernig þessu hefur hnignað á síðustu árum. Á síðustu þremur ára­tugum eftir að enskan var færð fram fyrir dönskuna í skólum hefur skandinavísku okkar hnignað mjög.“

Að sögn Hrannars er þó helsta á­stæða hnignunarinnar sú að fólk á það til að taka nor­rænu sam­starfi sem gefnu.

„Ríkis­stjórnir Norður­landanna hafa komist upp með að setja ekki aukna fjár­muni í nor­rænt sam­starf. Á sama tíma og ríkin hafa þanist út og um­fang þeirra vaxið gríðar­lega, ekki síst vegna nor­ræns sam­starfs, hafa fjár­veitingar til nor­rænna verk­efna staðið í stað og jafn­vel dregist saman. Núna er í rauninni um­fang nor­ræns sam­starfs bara helmingur á við það sem var fyrir þrjá­tíu árum, miðað við þjóðar­fram­leiðslu.“

Leita í al­þjóð­legar stofnanir

Hrannar segir hnignun nor­ræns sam­starfs hafa komið ber­sýni­lega í ljós í þeim krísum sem Evrópa og gjör­vallur heimurinn hefur gengið í gegnum á undan­förnum árum; flótta­manna­vandann, kóróna­veiru­far­aldurinn og nú síðast stríðið í Úkraínu.

„Í staðinn fyrir að leita í nor­rænt sam­starf í þessum málum hlaupa menn inn í stóru al­þjóð­legu stofnanirnar eins og NATO og Evrópu­sam­bandið sem hafa tól og tæki til að takast á við svona. En þetta eru hins vegar verk­færi sem nor­rænu löndin hafa svikist um að byggja upp á undan­förnum árum og þess vegna hefur fókusinn færst inn í hinar stofnanirnar,“ segir hann.

Nor­rænt sam­starf fái ríkis­vald

Spurður um hvað gera þyrfti til að takast á við hnignun nor­ræns sam­starfs og hefja það aftur til vegs og virðingar segir Hrannar:

„Við þyrftum í fyrsta lagi að stór­auka fram­lög okkar á ný til nor­rænna verk­efna. Ég held að við ættum að gera það með því að byggja upp sam­eigin­legar nor­rænar stofnanir sem gætu tekið á málum á nor­rænum basis í staðinn fyrir að vera bara sam­ráðs­vett­vangur. Ég held að það sé löngu kominn tími til þess að nor­rænt sam­starf fái ríkis­vald, svipað og Evrópu­sam­bandið eða NATO hefur.“

Pallborð um norrænt samstarf á Fundi fólksins 2021. Frá vinstri: Hrannar, Oddný G. Harðardóttir, Eiríkur Bergmann, Aldís Mjöll Geirsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og Pia Hansson.

Sam­nor­rænn ríkis­borgara­réttur

Að sögn Hrannars gæti fyrsta skrefið í átt að auknu nor­rænu sam­starfi verið að byggja upp sam­eigin­legan vett­vang eða stofnun með fram­kvæmda­vald sem tekið gæti á al­þjóð­legum krísum á borð við lofts­lags­vandann eða næsta heims­far­aldur.

„Ég held að það sé líka kominn tími til þess að við hug­leiðum hvort við eigum ekki stíga það skref til fulls sem hefur verið stigið með sam­eigin­legum vinnu­markaði og reglum um sam­eigin­leg réttindi á milli landa og búa til sam­eigin­legan nor­rænan ríkis­borgara­rétt. Þannig að við séum í rauninni ríkis­borgarar í okkar eigin ríkjum hvar sem við kjósum að búa á Norður­löndunum,“ segir hann.

Ljóst er að um rót­tæka hug­mynd er að ræða en Hrannar segir hana þó engu að síður fram­kvæman­lega.

„Noregur var síðasta landið sem heimilaði tvö­faldan ríkis­borgara­rétt þannig að nú er það í raun fram­kvæman­legt. Sam­eigin­legur nor­rænn ríkis­borgara­réttur myndi leysa mörg af þeim tækni­legu vanda­málum sem Norður­löndin hafa verið að glíma við þegar fólk flytur á milli landa. Þetta eru allt skref sem ég sé fyrir mér að gætu skipt máli ef menn vilja halda á­fram að byggja á nor­rænu sam­starfi en ekki bara láta það fletjast út og færa sam­starfið meira í al­þjóð­legar stofnanir.“

Stríðið þjappar heiminum saman

Mikil ólga er í Evrópu um þessar mundir vegna stríðsins í Úkraínu sem birtist meðal annars í fyrir­hugaðri inn­göngu Finna og Svía í NATO. Hrannar segir þetta á­stand þó vel til þess fallið að þjappa Norður­löndunum saman.

„Þetta er ekki bara að þjappa saman Norður­löndunum heldur er þetta að þjappa saman heiminum. Við erum að upp­lifa mjög merki­lega tíma í al­þjóða­stjórn­málum. Þetta mun að öllum líkindum þjappa Evrópu­sam­starfi saman líka,“ segir Hrannar.

Hann telur að stríðið í Úkraínu muni gjör­breyta heims­myndinni, al­þjóð­legu sam­starfi og al­þjóða­stofnunum. Þrátt fyrir að um mikinn harm­leik sé að ræða gæti það leitt til þess að vin­átta og sam­starf aukist á meðal annarra ríkja.

„Þetta skelfi­lega stríð getur auð­vitað leitt í allar áttir. Það getur leitt yfir okkur enn meiri skelfingar og ógnir og komið okkur á verri stað en það getur líka verið að þau á­nægju­legu merki sem við höfum séð, að vest­ræn ríki og nánast heimurinn allur standi saman gegn þessu, gefi fyrir­heit um að betri tíð sé í vændum. Við skulum vona að úkraínska þjóðin þurfi ekki að líða enn meiri þjáningar til þess að sú betri ver­öld verði að veru­leika,“ segir hann.

Mikil­vægt fyrir ungt fólk

Eins og áður sagði fagnar Nor­ræna fé­lagið hundraðasta starfs­ári sínu 2022. Fé­lagið hefur alla tíð staðið að líf­legu starfi með því leiðar­ljósi að efla sam­starf og vin­áttu­tengsl Ís­lendinga við aðrar Norður­landa­þjóðir. Spurður um mikil­vægi nor­ræns sam­starfs fyrir ungt fólk segir Hrannar:

„Nor­rænt sam­starf er að mörgu leyti mjög mikil­vægt fyrir ungt fólk. Bæði hefur það opnað glugga fyrir ungt fólk inn á hin Norður­löndin, annars vegar með Nor­djobb og hins vegar með há­skóla­sam­starfi.“

Hrannar segir það hafa sannast í gegnum árin hversu mikil­vægt nor­rænt sam­starf er ungu fólki. Hins vegar áttar fólkið sjálft sig ef til vill ekki á gildi þess fyrr en síðar meir.

„Við ölumst flest upp við það að vera pínd í að læra dönsku og sænsku í skóla og hata það en það er ekki fyrr en eftir við erum búin að kynnast kostum nor­ræns sam­starfs og nor­rænna sam­fé­laga að við áttum okkur á mikil­vægi þess.“

Heift og átök fyrir hundrað árum

Hrannar fer ekki í graf­götur með það að Nor­ræna fé­lagið, líkt og mörg önnur fé­laga­sam­tök, hafi þurft að takast á við dvínandi fé­lags­þátt­töku á undan­förnum árum. Hann segir fé­lagið þó hafa fundið fyrir því undan­farin ár að fólk sé smám saman að vakna aftur til vitundar um mikil­vægi þess að hlúa að nor­rænu sam­starfi.

„Það er auð­vitað alveg ó­trú­legt að hugsa til þess að fyrir hundrað árum síðan, þegar þessar þjóðir voru hver í sínu horni að stofna nor­ræn fé­lög og berjast fyrir nor­rænu sam­starfi, þá var borgara­stríð í Finn­landi og þjóðirnar voru að rífa sig lausar hver frá annarri í sjálf­stæðis­bar­áttu. Heiftin og á­tökin á milli þjóðanna voru svo mikil að það var alveg furðu­legt að ein­hverjum dytti það í hug að leggja upp með fé­lags­skap til að berjast fyrir sam­starfi, sam­vinnu og vinar­þeli á milli þessara þjóða.“

Í dag eru átök á milli Norður­landa­þjóðanna al­gjör­lega ó­hugsandi sem má að stærstum hluta þakka því hversu ötul­lega hefur verið unnið að nor­rænu sam­starfi. Annað er þó uppi á teningnum víða í Evrópu.

„Allt í kringum okkur í Evrópu eru þjóðir með svipaðan menningar­bak­grunn, jafn­vel svipaðan gena­grunn og menningar­sögu, sem hafa lent öfugum megin við landa­mærin, komnar í stríð við minnsta til­efni. En því er ekki að heilsa hér því við höfum ræktað vin­áttuna og sam­starfið sem við öll njótum,“ segir Hrannar.