Norræna félagið fordæmir innrás Rússa í Úkraínu

Á sambandsþingi Norræna félagsins sem haldið var 1. – 2. apríl var samþykkt eftirfarandi ályktun þar sem Norræna félagið fordæmir harðlega innrás Rússa í Úkraínu. Atburðirnir í Úkraínu minna okkur á mikilvægi góðra granna, sem deila gildum okkar. Norræna félagið hvetur ríkisstjórn Íslands til að efla samstarf Norðurlanda um samfélagsöryggi og viðbrögð við hvers konar vá.

Magnus Fröderberg/norden.org

Úkraína og endurreisn norræns samstarfs – ályktun sambandsþings Norræna félagsins á Íslandi, haldið 2. apríl 2022

Norræna félagið fordæmir harðlega innrás Rússa í Úkraínu. Hún gengur þvert á alþjóðalög og viðmið I samskiptum ríkja. Aðfarir rússneska hersins bera jafnframt vott um algert skeytingarleysi um líf og heilsu fólks.

Við hvetjum ríkisstjórnir, opinberar stofnanir, frjáls félagasamtök, fyrirtæki, og almenna borgara á Norðurlöndum sem eru þess megnugir að aðstoða Úkraínufólk í neyð, hvort tveggja þá sem dvelja í heimalandinu og þá sem eru á flótta í öðrum löndum. Jafnframt þarf að styðja varnarbaráttu Úkraínu gegn rússneska innrásarhernum. Enn fremur þarf að sýna stuðning í orði og verki við Eystrasaltsríkin þrjú og önnur nágrannalönd Rússa sem nú óttast um stöðu sína

Atburðirnir í Úkraínu minna okkur á það hversu mikil gæfa það er Íslendingum að eiga góða granna sem deila gildum okkar um mikilvægi friðar, mannréttinda, réttarríkisins, jöfnuðar og mannúðar. Þeir minna okkur jafnframt á að jafnvel ríki sem eru langtum stærri og fjölmennari en Ísland þurfa þegar hætta steðjar að, aðstoð annarra landa. Við ættum því að rækta betur samband okkar við norrænu ríkin, sem eru þau lönd sem standa okkur næst, líkjast okkur mest um samfélagsgerð og gildi og sem líklegust eru til að vilja aðstoða okkur þegar þörf krefur.

Norræna félagið hvetur því Alþingi og ríkisstjórn Íslands til að efla samstarf Norðurlanda um samfélagsöryggi og viðbrögð við hvers konar vá. Verkefnin og umbótaþörfin liggja fyrir, til að mynda í stefnumörkun norrænu ráðherranefndarinnar um að Norðurlönd verði samþættasta og sjálfbærasta svæði í heimi. Í skýrslu sem Jan-Erik Enestam, fyrrum ráðherra í Finnlandi, vann fyrir samstarfsráðherra Norðurlanda árið 2021 eru ýmsar tillögur um hvernig styrkja megi þessa samvinnu. Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, skilaði tillögum um þróun utanríkis- og öryggismálasamstarfs Norðurlanda í formennskutíð Íslendinga í Norrænu ráðherranefndinni árið 2019.  Norðurlandaráð lagði einnig fram tillögur um aukið samstarf á sviði samfélagsöryggis árið 2019.

Það eina sem vantar til að efla samstarf og sameiginlegan viðbúnað Norðurlanda er pólitískur vilji. Norræna félagið hvetur því íslenska ráðherra og þingmenn til að taka forystu um það að snúa við áratuga niðurskurði og stórauka metnað í opinberu samstarfi Norðurlanda og hefja það á ný til vegs og virðingar bæði á íslenskum vettvangi og norrænum.