Dagur Norðurlanda verður að vanda haldinn hátíðlegur þann 23. mars nk. og að þessu sinni fagnar Norræna ráðherranefndin fimmtíu ára afmæli.
Af því tilefni verður efnt til fimm umræðufunda þar sem rætt er hverju Norðurlöndin hafa áorkað í sameiningu. Tekin verða fyrir fimm málefni sem formennskuland ársins, Finnland, leggur áherslu á en það eru norrænar lausnar á sviði jafnréttis, stjórnsýsluhindrana, hringrásarhagkerfis, tjáningarfrelsis og menningar.
Undirliggjandi í öllum þessum málefnum er spurningin: Hvernig viljum við að Norðurlöndin verði í framtíðinni og hvernig gerum við þau að samþættasta og sjálfbærasta svæði í heimi?
Málefni menningar verður í brennidepli hér á Íslandi og býður Norræna húsið og Norræna félagið til pallborðsumræðu þar sem gildi menningar á Norðurlöndum á erfiðleikatímum og í framtíðinni – norrænt menningarsamstarf fyrrum, nú og framvegis verður til umfjöllunar.
Streymt verður frá viðburðurinum sem verður í Norræna húsinu frá kl 17.00 til 18.15.
Dagskrá
Norrænar menningarstofnanir – Sabina Westerholm, forstjóri Norræna hússins í Reykjavík
Pólitískt samstarf – Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda á Íslandi
Borgaralegt samfélag á Norðurlöndum – Hrannar Arnarsson, formaður Norræna félagsins á Íslandi
Formennska Finnlands í Norrænu ráðherranefndinni – Ann-Sofie Stude, sendiherra Finnlands á Íslandi
Umræður
Pallborðið mun:
Gefa sögulegt sjónarhorn á virði norræns menningarsamstarfs.
Varpa ljósi á hvernig heimsfaraldur kórónuveiru hefur haft áhrif á menningarlíf á Norðurlöndum.
Ræða hvaða þemu og hvaða hlutverki menning mun gegna í norrænu samstarfi í framtíðinni.
Þátttakendur í pallborðsumræðum:
Gísli Örn Garðarsson, leikari og leikstjóri
Tue West, tónlistarmaður
Björn Rafnar Ólafsson, menntaskólanemi í Norður-Atlantshafsbekknum (Nord-Atlantisk gymnasiumklasse)
Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður í forsætisnefnd Norðurlandaráðs og stjórnarmeðlimur Norræna menningarsjóðsins
Sabina Westerholm, forstjóri Norræna hússins í Reykjavík
Hugleiðingar í lok umræðnanna: Aldís Mjöll Geirsdóttir, forseti Norðurlandaráðs æskunnar.
Fundarstjóri: Sif Gunnarsdóttir, varaformaður Norræna félagsins á Íslandi.
Að lokum mun Söngsveitin Fílharmónía flytja tvö norræn lög.
Viðburðurinn fer fram á skandinavískum tungumálum.
Smelltu hér til að sjá dagskrána í heild sinni.
Norrænt matarboð
Á Degi Norðurlanda 23. mars er hefð fyrir því að blása til norræns matarboðs. Norrænu félögin söfnuðu saman uppskriftum að forréttum, aðalréttum og eftirréttum, einn rétt frá hverju landi frá sem hægt er að nota til að setja saman hið fínasta matarboð.
Matseðill Norræna gestaboðsins.
Forréttir
Salat með hörpuskel, rækjum og krabbakjöti (Grænland)
Rækjukokteill (Ísland)
Reiktur lax með sinnepssósu (Noregur)
Aðalréttir
Laxasúpa (Finnland)
Ofnbakaður þorskur með kryddjurtum (Færeyjar)
Kartöflubuff (Raggmunkar) með sveppum (Svíþjóð)
Eftirréttir
Eplakaka/Bondepige med slör (Danmörk)
Álenskar pönnukökur sveskjumauki (Álandseyjar)
Hægt er að hlaða uppskriftunum niður með því að smella á hlekkinn hér og á myndbandi sem hægt er að nálgast á YouTube fer einn af betri kokkum Danmerkur yfir réttina og sýnir hvernig á að útbúa ekta norræna veislu.
Dagskrá Norrænu ráðherranefndarinnar
Norræna ráðherranefndin fagnar fimmtíu ára afmæli á þessu ári. Af því tilefni verður efnt til fimm umræðufunda á Degi Norðurlanda 23. mars þar sem við ræðum hverju Norðurlöndin hafa áorkað í sameiningu og það sem lykilfólkið leggur áherslu um þessar mundir. Smelltu hér til að sjá dagskrá Norrænu ráðherranefndarinnar.
Saga dags Norðurlanda/Norræna dagsins 1936-2021
Helgi Þorsteinsson, nefndarritari Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, hefur skrifað afar skemmtilega samantekt um sögu dags Norðurlanda sem áhugasamir geta lesið hér að neðan.
Dagur Norðurlanda á sér allanga sögu en hefur færst til og tekið miklum breytingum í áranna rás. Árið 1936 var “Norræni dagurinn” haldinn hátíðlegur 27. október í öllum norrænu ríkjunum að frumkvæði Norrænu félaganna. Í skólum á Íslandi hófst dagurinn á því að börnin voru látin hlusta á klukknahringingar frá dómkirkjunum í Niðarósi, Uppsölum og Helsinki. Berggrav biskup í Noregi flutti síðan ræðu í útvarpið. Þetta hefur eflaust verið skólabörnunum til mikillar gleði og þroskaauka. Síðar um daginn voru fluttar í útvarpi ræður konunga Norðurlanda og forseta Finnlands. Norðurlandafánar voru dregnir á stöng um allan bæinn og ýmislegt fleira var gert til hátíðarbrigða og skemmtunar. Einna markverðast var það að svo að segja öll blöð sem þá voru gefin út – og þau voru mörg – fjölluðu ítarlega um norræna daginn og norræna samvinnu.
Ráðgert var að halda Norræna daginn á fimm ára fresti eftir þetta. Vegna heimsstyrjaldarinnar tókst ekki að standa við þá áætlun og næst var haldið upp á daginn árið 1951. Þá var hann að vísu færður til og ákveðið að hafa hann framvegis alltaf síðasta laugardag í september. Megináherslan var á útvarpsdagskrá í öllum löndunum. Kóngarnir fengu nú ekki að halda ræðu heldur forsætisráðherrarnir og flutt var norræn tónlist og fleira skemmtilegt barst landsmönnum á öldum ljósvakans. Biskupar og kirkjuklukkur komust þó ekki að í þetta sinn. Einnig var norræn dagskrá í skólum. Háðstímaritið Spegillinn birti ræðu sem það sagði að fulltrúi tímaritsins hefði flutt í tilefni dagsins. Ræðumaður hóf mál sitt með ávarpinu “Góðir Norræningjar” og sagði síðan meðal annars:
Sumir eru að halda því fram, að norræn samvinna sé mest átveizlur með tilheyrandi ræðum, meira og minna fölskum og fláráðum. Þetta má ef til vill til sanns vegar færa, en geta menn kannske hugsað sér samvinnu með tveim eða fleirum svöngum aðilum. Nei, og aftur nei! Forráðamenn þessarar ágætu hreyfingar hafa verið svo glúrnir að hafa jafnan nógan mat og nóg brennivín á samkomum sínum, og árangurinn hefur heldur ekki látið á sér standa. Hversu margir forgöngumenn norrænnar samvinnu ætli væru orðnir krossaðir riddarar, ef hennar hefði ekki notið við ? Og hver vill svo lá mönnum það, þó að þeir gerist dálítið „hástemmdir“, þegar líða tekur á veizlurnar og búið að samþykkja, hvar halda skuli næstu veizlu? Ef slíkt getur ekki komið manni í lyftingu, hvað getur það þá?
Norræni dagurinn var haldinn í þriðja sinn árið 1956 og var hann þá af einhverjum ástæðum fluttur til 30. október. Í fjórða skiptið árið 1961 var hann haldinn 13. apríl og í fimmta skiptið 6. október 1966. Í öll skiptin voru það norrænu félögin sem höfðu veg og vanda af hátíðarhöldunum í góðu samstarfi við ríkisútvarpsstöðvarnar og skólakerfið. Árið 1956 og hugsanlega oftar voru jafnframt gefin út sérstök frímerki í öllum norrænu löndunum við þetta tækifæri.
Lítið fór fyrir Norræna deginum árið 1971, að minnsta kosti var umfjöllun um hann í íslenskum dagblöðum ekki fyrirferðarmikil.
Þessi hátíð norrænnar samvinnu var lengst af nefnd “Norrænu dagurinn” er stundum var einnig talað um “Dag Norðurlanda”. Síðarnefnda heitið varð ofan á þegar viðburðurinn var endurskoðaður og settur í nýtt samhengi árið 1977. Það ár átti Norðurlandaráð 25 ára afmæli og ákveðið var að framvegis yrði haldið upp á það árlega 23. mars, en þann dag árið 1962 var Helsinki-sáttmáli Norðurlandanna undirritaður við hátíðlega athöfn í finnska þinginu.
Þetta sögulega yfirlit byggir fyrst og fremst á leit í dagblöðum. Frá 1977 er lítið sagt frá Degi Norðurlanda í íslenskum fjölmiðlum. Umfjöllunin verður svolítið meiri eftir því sem nær dregur nútímanum en er þó sáralítil í samanburði við það sem gerðist á fyrstu áratugunum meðan dagurinn var haldinn hátíðlegur á fimm ára fresti.
Fyrir þá sem höfðu gaman af háði Spegilsins um norrænt samstarf skal bent á enn mergjaðri umfjöllun í bundnu máli frá 1970. Hún hefst svo:
Einn norrœnn krati með norrœnt bros
á norrænu þingi
fékk sœti við norrœnt borðhald og nefndakos
og norrœna hundakœti
Framhaldið er ekki fyrir viðkvæmar sálir.