98 ára afmæli Norræna félagsins á Íslandi

Norræna félagið á Íslandi fagnar 98 ára afmæli í dag, 29. september. Félagið á rætur sínar að rekja til ótryggs stjórnmálaástands á árunum rétt fyrir fyrri heimsstyrjöldina sem varð til þess að konungar Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar ákváðu að efna til formlegs samstarfs sín á milli árið 1914. Í kjölfarið voru Norrænu félögin stofnuð hvert í sínu landi og var Norræna félagið á Íslandi stofnað árið 1922. Í könnun sem unnin var fyrir utanríkisráðuneytið í mars s.l. kom fram að 90% stuðningur er við norrænt samstarf á Íslandi – meira en nokkuð annað alþjóðlegt samstarf. Þá tökum við heilshugar undir orð Silju Daggar Gunnarsdóttir forseta Norðurlandaráðs þegar hún segir; Nágrannar okkar í norðri eru, nú sem fyrr, okkar mikilvægustu bandamenn. Ekki bara meðan COVID-19 veiran gengur yfir, heldur ekki síður þegar við hefjumst handa við að endurreisa þá samfélagslegu burðarstólpa sem sköðuðust á þessum einkennilegu tímum. Til hamingju með daginn!