Hvers virði er norrænt samstarf þeim flokkum sem bjóða sig fram til Alþingis á morgun 30. nóv.
Veistu ekki hvað þú átt að kjósa? Þá getur verið fróðlegt að kynna sér afstöðu þeirra til Norræns samstarfs.
Norræna félagið sendi 3 spurningar á þá flokka sem bjóða sig fram. Svör þeirra flokka sem bárust fylgja með að neðan.
Spurningar Norræna félagsins
Á undanförnum tveimur áratugum hafa framlög Norrænu landanna til norræns samstarfs á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs dregist saman um nær helming ef miðað er við hlutfall af landsframleiðslu landanna. Endurspeglar þessi dvínandi áhersla á norrænt samstarf áherslur flokksins eða mun hann beita sér fyrir breytingum og þá hverjum?
Hver er afstaða flokksins til eftirfarandi tillögu Norrænu félaganna um aukið og nánara norrænt samstarf með því að tengja fjárframlög til norræns samstarfs við landsframleiðslu ríkjanna
Hversu mikilvægt er norrænt samstarf að mati flokksins?
Svör Framsóknarflokksins X-B
1. Framsókn vill halda áfram að byggja upp öflugt samstarf á milli Norðurlandanna. Samstarfið hefur reynst farsælt við að gæta sameiginlegra hagsmuna þessara nágrannaþjóða hvað varðar auðlindir, arfleið, menningu og öryggismál.
2. Í stefnu flokksins er ekki tekin afstaða til þess að tengja fjárframlög til norræns samstarfs við landsframleiðslu ríkjanna. Slíkar ákvarðanir þyrftu að vera teknar í nánu samstarfi og samtali við hin Norðurlöndin.
3. Norrænt samstarf er mjög mikilvægt að mati Framsóknar og mun áfram skipta mikilvægan sess m.a. Í utanríkisstefnunni, ekki síst nú þegar Finnland og Svíþjóð hafa gerst aðilar að NATO.
Svör Viðreisnar X-C
1. Viðreisn hefur verið níu mánuði í ríkisstjórn frá því að flokkurinn var stofnaður árið 2016. Hann hefur því ekki getað beitt sér innan ríkisstjórnar í þessum málaflokki. Norðurlöndin eru nú öll aðilar að NATO og EES og þrjú þeirra eiga aðild að ESB. Mikilvægt er að Norðurlöndin nýti sér sameiginlegan styrk sinn á þessum vettvangi og ræði hvaða áhrif það hafi á hefðbundið norrænt samstarf bæði að formi, efni og fjármögnun. Viðreisn er til í það samtal
2. Viðreisn telur að fjármögnun nánara norræns samstarfs verði að byggja á samstöðu um hvaða verkefnum eigi að sinna og mati á kostnaði og ávinningi af þeim. Skipting kostnaðar milli ríkjanna verður svo að fara eftir samkomulagi þeirra. Viðreisn vill fara varlega í að festa útgjöld til ákveðinna málaflokka við einhvert fast hlutfall af umsvifum í viðkomandi landi.
3. Viðreisn telur að norrænt samstarf sé afar mikilvægt, ekki síst á tímum óróa og óvissu í alþjóðamálum enda hefur áhersla á öryggis- og varnarmál fengið stærri sess í norrænni samvinnu undanfarið. Samstarf á sviði menningar og lista byggir á margan hátt á sameiginlegum arfi og þarf að sinna sérstaklega. Sterk norræn rödd er líka mikilvæg þegar kemur að umhverfismálum og mannréttindamálum og yfir höfuð alls staðar þar sem reynir á hið sterka sameiginlega norræna gildismat.
Svör Sósíalistaflokks Íslands X-J
1. Alls ekki. Sósíalistaflokkurinn er alþjóðlega sinnaður flokkur og leggur mikla áherslu á norrænt samstarf. Við teljum gott samstarf norðurlandanna sé mun betri áhersla en á hernaðarsamstarf eins og NATO. Norrænu þjóðirnar eru systraþjóðir sem leggja mikla áherslu á velferð og frið, eða ættu allavega að gera það og Sósíalistar líta svo á að samvinna á þessum vettvangi sé mikilvæg.
2. Það er ágæt hugmynd. Mætti vel taka það aukna fjármagn frá framlögum til NATO.
3. Mjög mikilvægt. Þó Sósíalistaflokkurinn sér frekar nýr stjórnmálaflokkur þá hefur flokkurinn verið að rækta samstarf við systurflokka á Norðurlöndum. Þegar við komum inn á þing þá munum við rækta norrænt samstarf. Nú þegar stríð er um allan heim, meira að segja í Evrópu, þá hefur aldrei verið mikilvægara að vinna saman með hinum norðurlöndunum.
Svör Miðflokksins X-M
1. Miðflokkurinn leggur áherslu á að viðhalda og styrkja norrænt samstarf enda sterkar sögulegar og menningarlegar forsendur til þess. Miðflokkurinn lítur á norrænu löndin sem nánar vinaþjóðir og allt samstarf við þær ætti að taka mið af því.
2. Miðflokkurinn leggur áherslu á ráðdeild í ríkisbúskap og sér ekki þörf fyrir að ráðstafa ótilteknum upphæðum fyrirfram í óskilgreinda stofnanaumgjörð um samstarf sem þegar gengur vel fyrir sig.
3. Miðflokkurinn telur að norrænu þjóðirnar eigi mikið sameiginlegt og mikilvægt sé að viðhalda og vernda það mikla samstarf sem er á milli þjóðanna.
Svör Pírata X-P
1. Norrænt samstarf á sér langa og góða sögu og hafa Íslendingar lengi notið góðs af því samstarfi. Píratar telja mikilvægt að rækta og efla samstarf Norðurlanda á þeim sviðum sem þegar er samstarf um. Við sem búum á Norðurslóðum stöndum frammi fyrir mörgum áskorunum, meðal annars í tengslum við loftslagsbreytingar og er mikilvægt að Norðurlönd standi þétt saman og efli samstarf til þess að takast á við þessar áskoranir.
2. Það eru dæmi um það í stefnu Pírata að tengja framlög til ákveðinna málefna við hlutfall af landsframleiðslu, t.d. hafa Píratar verið fylgjandi því að Ísland nái viðmiðum OECD um að 0,7% af landsframleiðslu fari til þróunaraðstoðar. Píratar eru því opnir fyrir því að skoða tillögur Norrænu félagana um að tengja framlag til norræns samstarfs við landsframleiðslu.
3. Píratar telja að alþjóðlegt samstarf sé mikilvægt og það á sérstaklega við um samstarf við önnur Norðurlönd.
Svör Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs X-V
1. Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur ætíð lagt áherslu á norrænt og vestnorrænt samstarf og mun áfram gera, enda er þar um samstarf við okkar nánustu nágranna að ræða. Við viljum því frekar styrkja það samstarf en ekki draga úr því. Norrænt samstarf á sviði menningar er okkur sem þjóð mikilvægt og eflir okkur. Sama gildir um samnorrænar lausnir til þess að takast á við loftslagsmál. Þessi dvínandi áhersla endurspeglar því ekki áherslur VG. Við höfum beitt okkur fyrir auknum fjárveitingum inn í norrænt samstarf nú síðast þegar Guðmundur Ingi Guðbrandsson gegndi starfi samstarfsráðherra Norðurlandanna og á vettvangi Norðurlandaráðs, en því miður eru fá hinna norrænu ríkjanna til í þá vegferð með okkur.
2. VG hefur ekki rætt hvort tengja eigi fjárframlög til norræns samstarfs við landsframleiðslu ríkjanna. Það væri norrænu samstarfi vitanlega í hag þegar vel gengur en væri það ekki þegar og ef landsframleiðsla dregst saman. Hugmyndina er vert að skoða nánar og þá kannski að horfa líka til þess varnagla að fjárframlög haldist hið minnsta alltaf í hendur við verðlag og verðbólgu.
3. Við teljum norrænt samstarf mjög mikilvægt og höfum ávallt forgangsraða norrænu og vest norrænu samstarfi í okkar alþjóðastarfi. Norrænt samstarf er Íslandi afar hagfellt og við fáum mjög mikið út úr samstarfinu á ótal mörgum sviðum. Norrænt samstarf snýst líka um að rækta vináttu og frændsemi með helstu nágrönnum og samstarfsríkjum, og það er líka afar þýðingarmikið. Jafnframt erum við fylgjandi fullri aðild Grænlands og Færeyja að Norðurlandaráði.