Viðtal við Hrannar Björn Arnarsson, formann Norræna félagsins, í Morgunblaðinu þar sem hann ræðir meðal annars Dag Norðurlanda og 100 ára afmæli félagsins á árinu.
Texti. Sigurður Bogi/Morgunblaðið
Dagur Norðurlandanna er 23. mars og margt á döfinni hjá Norræna félaginu sem nú er að verða 100 ára
„Stundum er staðhæft að á Norðurlöndunum sé við lýði besta samfélagsgerð heimsins sem ég get að mörgu leyti tekið undir. Að minnsta kosti er tæpast tilviljun að á síðustu 100 árum hafa norrænu löndin náð þeirri stöðu að komast úr meðallagi á flesta mælikvarða til þess að vera í fremstu röð í veröldinni. Ég held að norræna samstarfið sé lykillinn að þessum ótrúlega árangri,“ segir Hrannar B. Arnarsson, formaður Norræna félagsins á Íslandi.
Um 1920 var stofnað til bandalags milli Dana, Svía og Norðmanna sem er grunnurinn að norrænu samstarfi dagsins í dag. Stofnun og starf norrænu félaganna á öllum Norðurlöndunum – á Íslandi árið 1922 – var hluti af þeirri þróun. Atbeini félaganna hafði mikið um að segja að komið var á því kerfi að íbúar landanna njóta margvíslegra sameiginlegra réttinda, sem reynst hafa vel. Þar má nefna vegabréfasamstarf, vinnumarkað og að félagsleg réttindi íbúa landanna eru söm í þeim öllum.
Þurfum nýja norræna stjórnarskrá
Norðurlöndin eru fimm. Svíþjóð með liðlega 10 milljónir íbúa en Danir, Norðmenn og Finnar, eru álíka margir eða um 5,5 milljónir hver þjóð. Íslendingar eru um 360 þúsund. Þá eiga Færeyjar, Grænland og Álandseyjar aukaaðild að Norðurlandaráði og leggja margt til þess.
„Í stærstu viðfangsefnum samtímans nú er algengt að samráð og aðgerðir eigi sér stað í gegnum alþjóðlegar stofnanar, svo sem ESB eða NATO . Úkraínustríðið er gott dæmi um þetta,“ segir Hrannar. „Helsinki-sáttmálinn, sem norræna samstarfið byggir á, gerir hins vegar ráð fyrir að aðgerðir byggist á einróma niðurstöðum. Þar eru engar skuldbindandi ákvarðanir teknar fyrir hönd ríkjanna. Ég tel að þessu þurfi að breyta. Ef norrænt samstarf á að styrkjast í jákvæða átt, þurfum við nýja norræna stjórnarskrá, þar sem sameiginlegar stofnanir Norðurlandanna fá meira vægi og stöðu til taka skuldbindandi ákvarðanir og fylgja þeim eftir.“
Snemma á 20. öld var viðsjárvert ástand í Evrópu vegna fyrri heimsstyrjaldarinnar. Norrænu þjóðirnar hófu í andrúmi þess samstarf sem þéttist og varð nánara þegar stundir fram liðu. Árið 1952 var Norðurlandaráð stofnað og á vegum þess eru mörg verkefni í deiglu á hverjum tíma. Þá heldur Norræna félagið á Íslandi úti öflugu starfi og innan vébanda þess eru félagsdeildir víða um land.
Íslendingar fá mikið fyrir lítið
„Þúsundir Íslendinga búa á Norðurlöndum; sýnu flestir í Danmörku og Noregi. Á skrifstofu Norræna félagsins við Óðinstorg í Reykjavík leitar í hverri viku fjöldi fólks eftir ráðum um norræn mál. Við stöndum fyrir tungumálakennslu og Íslendingar sem hyggjast flytja utan um lengri eða skemmri tíma vilja leiðbeiningar um hvernig sé best að fóta sig í nýju landi, þar sem réttindi og samfélagsgerð eru samt aldrei ólík því sem gerist á Íslandi. Slíkt er kannski stóri galdurinn í þessu öllu.“
Síðustu ár hefur hagkerfi Norðurlandanna eflst verulega, en framlög ríkjanna til samstarfs ríkjanna hafa ekki fylgt því. Fyrir vikið gætu ýmis sameiginleg norræn verkefni hugsanlega farið undir niðurskurðarhníf, eins og Hrannar bendir á. Nefnir þar þýðingarsjóði, menningarstarf Norðurlandahúsanna, stuðning við kvikmyndagerð og Nordjobb, þar sem ungmennum hefur gefist kostur á sumarvinnu í öðrum löndum. Norðurlandasamstarfið kosti alls um 20 milljarða króna á ári og af því eru Íslendingar að greiða um 300 milljónir eða um 1,6% af heildinni. Fái þar mikið fyrir lítið og hver króna skili sér margfalt til baka.
Upplýst og öfgalaus velferðarsamfélög
Þann 23. mars er Dagur Norðurlandanna og þá verður hamrað á boðskap dagsins með ýmsu móti. Hjá Norræna félaginu sem nú er að detta í 100 árin verður á næstunni efnt til margvíslegra viðburða eins og hægt verður að fylgjast með á www.norden100.is. Þar verða norrænt samstarf, vitund, menning og samkennd allt mikilvægir þræðir. Þá hefur Norræna félagið sett af stað söfnun á örsögum, um reynslu fólks af norrænum samskiptum. Þær má senda á orsogur@norden.is.
„Nú þegar stríð er í Evrópu, öfgahyggja er víða að aukast og krefjandi verkefni bíða okkar til dæmis í loftslagsmálum koma kostir norræna módelsins vel fram; það er upplýst og öfgalaus samfélög þar sem þjóðir rækta vináttu sín á milli og njóta hennar. Þetta er öflugasta svæðasamstarf milli þjóða í veröldinni,“ segir Hrannar og að síðustu:
„Auðvitað eru samfélög í sífelldri þróun og fólki frá fjarlægri slóð, til dæmis flóttamönnum, sem setjast að á Norðurlöndunum, fjölgar stöðugt. Þetta fólk, eins og aðrir, aðlagast sínu samfélagi þó yfirleitt fljótt og glæðir lífi. Þannig breytast hinar norrænu rætur og hverjum tíma fylgja jafnan nýjar áskoranir. Sjaldan er af neinni alvöru spurt um hvort norrænt samstarf eigi rétt á sér, heldur einungis um leiðir að settum sameiginlegum markmiðum. Þau eru líka alveg skýr; að viðhalda þróuðu samstarfi og samfélagi velferðar, umburðarlyndis og þekkingar þar sem réttindi allra eru tryggð.“
• Hrannar Björn Arnarsson er fæddur árið 1967. Fyrr á árum starfaði hann við ýmis markaðsstörf og var í eigin rekstri. Borgarfulltrúi og svo aðstoðarmaður félags- og síðar forsætisráðherra 2007-2013. Þá framkvæmdastjóri þingflokks jafnaðarmanna í Norðurlandaráði uns hann tók við núverandi starfi árið 2018.
• Formaður Norræna félagsins á Íslandi frá 2019.