Norrænt samstarf lykillinn að árangri

Viðtal við Hrannar Björn Arnarsson, formann Norræna félagsins, í Morgunblaðinu þar sem hann ræðir meðal annars Dag Norðurlanda og 100 ára afmæli félagsins á árinu.

Texti. Sig­urður Bogi/Morgunblaðið


Dagur Norðurlandanna er 23. mars og margt á döfinni hjá Norræna félaginu sem nú er að verða 100 ára

„Stund­um er staðhæft að á Norður­lönd­un­um sé við lýði besta sam­fé­lags­gerð heims­ins sem ég get að mörgu leyti tekið und­ir. Að minnsta kosti er tæp­ast til­vilj­un að á síðustu 100 árum hafa nor­rænu lönd­in náð þeirri stöðu að kom­ast úr meðallagi á flesta mæli­kv­arða til þess að vera í fremstu röð í ver­öld­inni. Ég held að nor­ræna sam­starfið sé lyk­ill­inn að þess­um ótrú­lega ár­angri,“ seg­ir Hrann­ar B. Arn­ars­son, formaður Nor­ræna fé­lags­ins á Íslandi.

Um 1920 var stofnað til banda­lags milli Dana, Svía og Norðmanna sem er grunn­ur­inn að nor­rænu sam­starfi dags­ins í dag. Stofn­un og starf nor­rænu fé­lag­anna á öll­um Norður­lönd­un­um – á Íslandi árið 1922 – var hluti af þeirri þróun. At­beini fé­lag­anna hafði mikið um að segja að komið var á því kerfi að íbú­ar land­anna njóta marg­vís­legra sam­eig­in­legra rétt­inda, sem reynst hafa vel. Þar má nefna vega­bréfa­sam­starf, vinnu­markað og að fé­lags­leg rétt­indi íbúa land­anna eru söm í þeim öll­um.

Þurf­um nýja nor­ræna stjórn­ar­skrá

Norður­lönd­in eru fimm. Svíþjóð með liðlega 10 millj­ón­ir íbúa en Dan­ir, Norðmenn og Finn­ar, eru álíka marg­ir eða um 5,5 millj­ón­ir hver þjóð. Íslend­ing­ar eru um 360 þúsund. Þá eiga Fær­eyj­ar, Græn­land og Álands­eyj­ar aukaaðild að Norður­landaráði og leggja margt til þess.

„Í stærstu viðfangs­efn­um sam­tím­ans nú er al­gengt að sam­ráð og aðgerðir eigi sér stað í gegn­um alþjóðleg­ar stofn­an­ar, svo sem ESB eða NATO . Úkraínu­stríðið er gott dæmi um þetta,“ seg­ir Hrann­ar. „Hels­inki-sátt­mál­inn, sem nor­ræna sam­starfið bygg­ir á, ger­ir hins veg­ar ráð fyr­ir að aðgerðir bygg­ist á ein­róma niður­stöðum. Þar eru eng­ar skuld­bind­andi ákv­arðanir tekn­ar fyr­ir hönd ríkj­anna. Ég tel að þessu þurfi að breyta. Ef nor­rænt sam­starf á að styrkj­ast í já­kvæða átt, þurf­um við nýja nor­ræna stjórn­ar­skrá, þar sem sam­eig­in­leg­ar stofn­an­ir Norður­land­anna fá meira vægi og stöðu til taka skuld­bind­andi ákv­arðanir og fylgja þeim eft­ir.“

Snemma á 20. öld var viðsjár­vert ástand í Evr­ópu vegna fyrri heims­styrj­ald­ar­inn­ar. Nor­rænu þjóðirn­ar hófu í and­rúmi þess sam­starf sem þétt­ist og varð nán­ara þegar stund­ir fram liðu. Árið 1952 var Norður­landaráð stofnað og á veg­um þess eru mörg verk­efni í deiglu á hverj­um tíma. Þá held­ur Nor­ræna fé­lagið á Íslandi úti öfl­ugu starfi og inn­an vé­banda þess eru fé­lags­deild­ir víða um land.

Íslend­ing­ar fá mikið fyr­ir lítið

„Þúsund­ir Íslend­inga búa á Norður­lönd­um; sýnu flest­ir í Dan­mörku og Nor­egi. Á skrif­stofu Nor­ræna fé­lags­ins við Óðin­s­torg í Reykja­vík leit­ar í hverri viku fjöldi fólks eft­ir ráðum um nor­ræn mál. Við stönd­um fyr­ir tungu­mála­kennslu og Íslend­ing­ar sem hyggj­ast flytja utan um lengri eða skemmri tíma vilja leiðbein­ing­ar um hvernig sé best að fóta sig í nýju landi, þar sem rétt­indi og sam­fé­lags­gerð eru samt aldrei ólík því sem ger­ist á Íslandi. Slíkt er kannski stóri gald­ur­inn í þessu öllu.“

Síðustu ár hef­ur hag­kerfi Norður­land­anna eflst veru­lega, en fram­lög ríkj­anna til sam­starfs ríkj­anna hafa ekki fylgt því. Fyr­ir vikið gætu ýmis sam­eig­in­leg nor­ræn verk­efni hugs­an­lega farið und­ir niður­skurðar­hníf, eins og Hrann­ar bend­ir á. Nefn­ir þar þýðing­ar­sjóði, menn­ing­ar­starf Norður­landa­hús­anna, stuðning við kvik­mynda­gerð og Nor­djobb, þar sem ung­menn­um hef­ur gef­ist kost­ur á sum­ar­vinnu í öðrum lönd­um. Norður­landa­sam­starfið kosti alls um 20 millj­arða króna á ári og af því eru Íslend­ing­ar að greiða um 300 millj­ón­ir eða um 1,6% af heild­inni. Fái þar mikið fyr­ir lítið og hver króna skili sér marg­falt til baka.

Upp­lýst og öfga­laus vel­ferðarsam­fé­lög

Þann 23. mars er Dag­ur Norður­land­anna og þá verður hamrað á boðskap dags­ins með ýmsu móti. Hjá Nor­ræna fé­lag­inu sem nú er að detta í 100 árin verður á næst­unni efnt til marg­vís­legra viðburða eins og hægt verður að fylgj­ast með á www.nor­d­en100.is. Þar verða nor­rænt sam­starf, vit­und, menn­ing og sam­kennd allt mik­il­væg­ir þræðir. Þá hef­ur Nor­ræna fé­lagið sett af stað söfn­un á ör­sög­um, um reynslu fólks af nor­ræn­um sam­skipt­um. Þær má senda á or­sog­ur@nor­d­en.is.

„Nú þegar stríð er í Evr­ópu, öfga­hyggja er víða að aukast og krefj­andi verk­efni bíða okk­ar til dæm­is í lofts­lags­mál­um koma kost­ir nor­ræna mód­els­ins vel fram; það er upp­lýst og öfga­laus sam­fé­lög þar sem þjóðir rækta vináttu sín á milli og njóta henn­ar. Þetta er öfl­ug­asta svæðasam­starf milli þjóða í ver­öld­inni,“ seg­ir Hrann­ar og að síðustu:

„Auðvitað eru sam­fé­lög í sí­felldri þróun og fólki frá fjar­lægri slóð, til dæm­is flótta­mönn­um, sem setj­ast að á Norður­lönd­un­um, fjölg­ar stöðugt. Þetta fólk, eins og aðrir, aðlag­ast sínu sam­fé­lagi þó yf­ir­leitt fljótt og glæðir lífi. Þannig breyt­ast hinar nor­rænu ræt­ur og hverj­um tíma fylgja jafn­an nýj­ar áskor­an­ir. Sjald­an er af neinni al­vöru spurt um hvort nor­rænt sam­starf eigi rétt á sér, held­ur ein­ung­is um leiðir að sett­um sam­eig­in­leg­um mark­miðum. Þau eru líka al­veg skýr; að viðhalda þróuðu sam­starfi og sam­fé­lagi vel­ferðar, umb­urðarlynd­is og þekk­ing­ar þar sem rétt­indi allra eru tryggð.“

• Hrann­ar Björn Arn­ars­son er fædd­ur árið 1967. Fyrr á árum starfaði hann við ýmis markaðsstörf og var í eig­in rekstri. Borg­ar­full­trúi og svo aðstoðarmaður fé­lags- og síðar for­sæt­is­ráðherra 2007-2013. Þá fram­kvæmda­stjóri þing­flokks jafnaðarmanna í Norður­landaráði uns hann tók við nú­ver­andi starfi árið 2018.

• Formaður Nor­ræna fé­lags­ins á Íslandi frá 2019.