Norrænn vinalundur var vígður í Fossvogsdal í gær í tilefni 100 ára afmælis Norræna félagsins. Verkefnið er samstarf Kópavogsbæjar og Norræna félagsins í tilefni afmælisins.
100 plöntur hafa verið gróðursettar í lundinum, þar af átta mismunandi trjáplöntur og runnar sem tákna hvert sitt land á Norðurlöndunum. Við dæmigerðan trjágróður fyrir hvert land hefur verið komið fyrir skilti með fána og QR-kóða þar sem kalla má fram fróðleik um viðkomandi land.
Lundurinn hefur þann tilgang að minna á gildi og mikilvægi norrænnar vináttu og samstarfs. En mun einnig nýtast til fræðslu um Norðurlöndin. Snælandsskóli og Fossvogsskóli munu geta nýtt sér lundinn til fræðslu og ánægju um ókomna tíð.
Björg Baldursdóttir, skólastjóri Kársnesskóla og varabæjarfulltrúi, flutti ávarp fyrir hönd Kópavogsbæjar við tilefnið og Hrannar B. Arnarsson formaður Norræna félagsins sömuleiðis.
Nemendur Snælandsskóla sungu lag úr söngleiknum um Ronju ræningjadóttur við athöfnina sem var sótt af fulltrúum Norræna félagsins og gestum frá Norðurlöndunum auk fulltrúa Kópavogsbæjar.
Vinalundurinn er neðan Álfatúns, milli götunnar og Fossvogsskóla.