Furðuheimur fornaldarsagna og þrjú dönsk tónskáld

Dansk-íslenska félagið og Norræna félagið efna til sameiginlegs fundar mánudaginn 29. ágúst kl. 20 í Seltjarnarneskirkju. Allir eru velkomnir og aðgangur ókeypis. Kaffiveitingar verða í boði á eftir.

Dagskrá er sem hér segir:

Steen Lindholm, kór- og hljómsveitarstjóri, formaður Dansk-islandsk samfund í Danmörku, segir frá þremur dönskum tónskáldum, C.E.F. Weyse, Niels W. Gade og Carl Nielsen, og leikur á píanó fáein verk þeirra: – Weyse: 2 píanóverk, Gade: Aquarel og Carl Nielsen: Fimm píanóverk opus 3.

Erik Skyum-Nielsen, fv. sendikennari við Háskóla Íslands og þýðandi íslenskra bókmenntaverka, flytur erindi: “En meget mærkelig saga og en meget mærkelig saganovelle / Skrýtin saga og skrýtinn þáttur úr undraheimi fornaldarsagna”.

ERIK SKYUM-NIELSEN lauk meistaraprófi í norrænum bókmenntum frá Hafnarháskóla 1974, lektor í dönsku við Háskóla Íslands 1974-78, bókmenntagagnrýnandi við dagblaðið Information og ýmis störf við Hafnarháskóla og einnig við Konunglega bókasafnið. Erik hefur verið í ritstjórn tímarita og þýtt á dönsku um hundrað ritverk íslenskra og færeyskra höfunda. Má þar fyrst nefna Íslendinga sögur og fornaldarsögur Norðurlanda. Einnig hefur hann þýtt verk eftir nærri 20 íslenska samtímahöfunda, þau Auði Övu Ólafsdóttur, Birgi Sigurðsson, Friðrik Erlingsson, Fríðu Á. Sigurðardóttur, Gerði Kristnýju, Guðberg Bergsson, Guðmund Andra Thorsson, Gyrði Elíasson, Jakobínu Sigurðardóttur, Jónas Reyni Gunnarsson, Ólaf Hauk Símonarson, Sigurð Pálsson, Stefán Hörð Grímsson, Steinar Braga, Svövu Jakobsdóttur, Thor Vilhjálmsson og seinast og ekki síst Einar Má Guðmundsson, en um hann hefur Erik einnig skrifað bók.

Erik Skyum-Nielsen hefur hlotið margvíslegar viðkenningar fyrir störf sín, m.a. riddarakross Fálkaorðunnar 1999 og í ár hlýtur hann dönsku móðurmálsverðlaunin.

STEEN LINDHOLM lærði hljómsveitarstjórn og orgelleik við konunglega danska tónlistarháskólann. Hann hefur lengi stjórnað danska drengjakórnum og kgl. danska óperukórnum, en jafnframt gegnt hljómsveitarstjórn víða um heim og stjórnað flutningi ýmissa viðamestu verka tónbókmenntanna. Hann var um árabil gestastjórnandi við hollenska útvarpskórinn og hefur í þriðjung aldar haldið tónleika með Konsertsveit Kaupmannahafnar í fimm heimshlutum. Hann stjórnaði flutningi Íslensku óperunnar á Carmina Burana, hefur staðið fyrir mörgum hljómleikaferðum til Íslands og oft verið fararstjóri á Íslandi. Steen hefur kynnt íslenska tónlist í Danmörku, Bandaríkjunum, Argentínu, Austurríki og Noregi; varla hefur nokkur annar en hann frumflutt íslenska tónlist í Venezuela. Hann er kvæntur íslenskri konu og hefur sl. 22 ár verið formaður Dansk-íslenska félagsins í Kaupmannahöfn.

Steen Lindholm var sæmdur Fálkaorðunni 1996 og hefur hlotið heiðursverðlaun danskra tónlistargagnrýnenda.

Í 2. hefti af Rask & Repp, tíðindum frá Dansk-íslenska félaginu, er grein eftir Steen um hið vinsæla farþegaskip Gullfoss sem sigldi milli Reykjavíkur og Kaupmannahafnar á síðustu öld. Einnig eru skemmtileg minningabrot Steens í 61. hefti Skjaldar, tímarits Páls Skúlasonar, sem lengi var formaður Dansk-íslenska félagsins.