Norræna félagið í Suðurnesjabæ

Við sameiningu tveggja sveitarfélaga á Suðurnesjum, Sandgerðisbæjar og Sveitafélagsins Garðs var að mörgu að hyggja. Á aðalfundi Norræna félagsins í Garði sem var haldinn í júní sl. var það rætt hvort ekki væri raunhæft að Norræna félagið í Garði tæki upp það nafn sem nýja sveitarfélagið fengi. Engin deild var í Sandgerðisbæ svo ákveðið var að skoða þetta nánar og málinu vísað til framhaldsaðalfundar sem ákveðið var að halda í september.

Þegar að þeim fundi kom var ekki enn búið að gefa nýja sveitarfélaginu nafn. Það var engu að síður ákveðið að þegar nafnið yrði ljóst þá yrði nafnabreyting á Norræna félaginu í Garði. Þann 1. janúar fékk nýja, sameinaða sveitarfélagið nafnið Suðurnesjabær. Var þá ekki eftir neinu að bíða og nafnbreytingin tilkynnt á heimasíðunni og hugað að fleiru í því sambandi.

Margir skemmtilegir viðburðir eru framundan hjá Norræna félaginu í Suðurnesjabæ, meðal annars sameiginleg vorhátíð deildanna á Suðurnesjum. Verður hún haldin 22. mars. Vonast er til að þátttaka verði góð. Á Degi Norðurlandanna, þann 23. mars verður gefið út fréttabréf eins og venja er þann dag. Árleg vorferð deildarinnar verður farin í maí, hingað til hefur verið um einstaklega skemmtilegar ferðir að ræða en heimsóknir til annarra deilda hefur verið lykilatriði í þessum góðu ferðum.

Aðalfundurinn verður að venju haldinn í júní, skoða má hvort fundarstaður verður ekki í suðurbænum, Sandgerðisbæ. Allir sem áhuga hafa fyrir norrænu grasrótarstarfi eru innilega velkomnir í félagið.